<
Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

8. Æðey

Í Æðey hefur frá fornu fari verið stórbýli, enda miklar nytjar af fugli. Þar er talið að hafi orpið 24 tegundir fugla. Í Æðey gerðu Ari sýslumaður í Ögri og hans menn átján spænskum skipbrotsmönnum fyrirsát aðfaranótt 14. október árið 1615 og drápu þá alla. Spánverjarnir höfðu verið sakaðir um þjófnað á búpeningi og rán á skútu á Dynjanda og gerðir réttdræpir samkvæmt konungsúrskurði. Flestir munu hafa verið grýttir til bana við svokallað Gulanef í Æðey, aðrir skotnir á færi á Sandeyri og á sundi þar út af ströndinni.

Á seinni hluta 19. aldar var skyttunni Otúel Vagnssyni (1834-1901) á Berjadalsá stefnt fyrir sýslumann í Æðey fyrir æðarfugladráp. Rósinkar Árnason bóndi í Æðey stefndi Otúel sem var dæmdur til að greiða allháa sekt. Að föllnum dómi segir Rósinkar við Otúel: "Skjóttu nú helvískur, ef þú þorir". Otúel lét ekki segja sér það tvisvar heldur lét skot ríða af sem grandaði sjö æðarkollum á einu bretti. Komst Otúel upp með athæfið því sýslumaður kvaðst vera vitni að því að Rósinkar bæði Otúel að skjóta.

Í Æðey voru 20 skráðir til heimilis árið 1703 og er þar þá tvíbýli. Talið er að bænhús hafi verið til forna í eynni. Systkinin Ásgeir Guðmundsson, Halldór og Sigríður voru húsbændur í Æðey um 1930 og lengi síðan. Stórt og veglegt íbúðarhúsið var byggt 1863-64. Það stendur enn, að mestu með óbreyttri herbergjaskipun síðustu áratugina, en viðbygging er nú komin við húsið. Æðeyjarsystkini seldu jörðina 1961 og tóku þá við búi í Æðey Helgi Þórarinsson frá Látrum í Mjóafirði og Guðrún Lárusdóttir, dóttir Guðjónu Guðmundsdóttur frá Æðey.

Í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að mönnum þyki líklegt að bær muni hafa staðið í svonefndu Norðurtúni í Æðey. Þar voru þá tóftarrústir og túngarðsleifar. Girðingar með viðlíka formi gangi vestur frá túninu, sem einnig var talið að væru leifar fornrar byggðar. Norðan við íbúðarhúsið í Æðey er Mylluhóll. Þar var kornmylla er fauk árið 1941. Syðst á Æðey er Klettshóll þar sem reistur var viti árið 1949. Bryggja var byggð við Örlygshöfn, vestan til á eyjunni, en hún fór í hafsjó árið 1971. Ný bryggja var byggð við Kaplanes í norðurhluta eyjarinnar 1976. Þaðan er um kílómeterslöng leið að bænum. Í sundinu á milli Æðeyjar og lands er Djúphólmi sem áður fyrr var nytjaður til heyskapar. Svokallað Bergsel er í landi Æðeyjar utan Hávarðssstaða. Þar var sel Æðeyjarbænda lengi. Í Jarðabókinni er þar nefnt Mánaberg og sagt að þar hafi verið byggð í fyrndinni, en þess sáust þó lítil merki árið 1703.

Svonefnt Jónasarhús var reist í Æðey 1878 og stendur enn, með litlum breytingum. Hús þetta var upphaflega byggt við saltvinnsluna í Reykjanesi laust fyrir 1790. Það er hæð og ris með skarsúð. Rósinkar Árnason keypti húsið eftir að það hafði staðið lengi autt og reisti það í Æðey, þegar fjölskylda hans varð skyndilega húsnæðislaus. Jónas Jónasson og Elísabet Guðmundsdóttir bjuggu í húsinu til 1936 er þau fluttu til Reykjavíkur. Síðan hefur húsið verið notað sem geymsla.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Norrænum fánum flaggað við íbúðarhúsið í Æðey á fyrrihluta 20. aldar Æðeyjarhöfn 1928 Frá Æðey 8. júní 1920 Æðeyjarviti
Æðeyjarsystkin: Ásgeir Guðmundsson (1887-1976), Sigríður María Guðmundsdóttir (1890-1982) og Halldór Ásgrímur Guðmundsson (1889-1968) Heyflutningar við Æðeyjarhólma Frá Æðey 8. júní 1920 Jónasarhús í Æðey. Brunavirðingarteikning frá 1934


Til baka


Sendið póst