Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

6. Unaðsdalur

Í Unaðsdal hefur verið býli frá fornu fari. Þar var, samkvæmt Landnámu, bústaður landnámsmannsins Ólafs jafnakolls, sem nam allt land við norðanvert Djúp frá Langadalsá að Sandeyrará. Kirkja hefur verið í Unaðsdal síðan 1867 er hún var flutt frá Snæfjöllum. Hún stóð áður ofar í túninu, en 1897 var byggð sú kirkja sem enn stendur við ósa Dalsár. Árið 1703 er skráður 21 til heimilis í Unaðsdal. Vatnsfjarðarstaður á þá helming jarðarinnar. Helmingur hennar, bóndaeignin, hefur þá legið í eyði frá því bólan gekk. Árið 1801 eru heimilisfastir 20 á fjórum býlum í Unaðsdal. Kolbeinn Jakobsson, orðlögð aflakló, bjó í Unaðsdal í um fjóra áratugi í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar 20., en eftir það bjó hann um tíma í Hólhúsinu í Bæjum.

Helgi Guðmundsson og Guðrún Ólafsdóttir keyptu Unaðsdal af Kolbeini og hófu þar búskap 1922. Helgi byggði þar timburhús og flutti fjölskyldan í það 1928. Þetta hús stendur að hluta enn, árið 2006, og er hornið á stórri hlöðu, sem reist var um 1960 þegar Kjartan Helgason og Stefanía Ingólfsdóttir byggðu nýtt steinhús. Þau hættu búskap 1994 og fluttu í Mosfellsbæ. Helgi Guðmundsson í Unaðsdal smíðaði bát um eða rétt fyrir 1930. Hann var smíðaður á hlaðinu í skjóli við húsgaflinn. Í bátinn var sett Sleipnis-vél, gekk hún fyrir bensíni. Báturinn var kallaður Uni og var honum róið frá Dalsjónum í fjölda ára. Helgi þurfti oft að flytja Salbjörgu Jóhannsdóttur, ljósmóður á Lyngholti, út á strönd og var jafnan tiltækur í slíkar ferðir, sem stundum þurfti að fara í misjöfnu veðri.

Gamli neðri bærinn í Unaðsdal stóð innundir brekkuröndinni inn af núverandi íbúðarhúsi. Þar sáust vegghleðslurnar á fjórða áratugnum, en timbur var horfið úr tóftunum. Svokölluð "lögrétta", forn hringlaga hleðsla sem mótaði vel fyrir og hafði innri vegg á smáparti, stóð nálægt 30 metrum ofar ytra horninu á kirkjugarðinum. Þvermálið var um 12-15 metrar. Engilbert Ingvarsson man eftir leikjum í "lögréttunni", Þarna var allt sléttað, því túnið var mjög þýft. Sigurborg Helgadóttir frá Unaðsdal segir föður sinn hafa úbúið sérstakt verkfæri til að koma fyrir grjóti og að grjóthringur lögréttunnar hafi verið settur undir græna torfu, en hann megi finna aftur.

Í gamla bænum í Unaðsdal bjuggu fram í ársbyrjun 1936 Ingvar Ásgeirsson og Salbjörg Jóhannsdóttir, einnig Guðmundur Jónsson og Guðný Guðmundsdóttir. Guðmundur var faðir Helga í Dal. Guðný var dóttir Guðmundar Pálmasonar frá Bæjum. Þau hjónin töluðu að sögn Engilberts Ingvarssonar fornt vestfirskt mál og sögðu "hefdi", "nordan", "sagdi" og einnig "dinn" fyrir þinn. Bærinn stóð nálægt brekkuröndinni, dágóðan spöl frá neðri bænum, og sést móta fyrir bæjarhólnum ennþá. Bærinn var nokkuð reisulegur torfbær, tvær bæjarburstir og inngangur í framhýsi við hliðina að utanverðu. Innangengt var í peningshús, en þau voru öll fallin niður fyrir 1930.

Í Unaðsdal var talsverð mótekja fram undir miðja síðustu öld. Í Jarðabókinni er þar talinn móskurður til eldiviðar nægur.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Kjartan Helgason ásamt Ólafi Hannibalssyni og tveimur klárum með klyfjar við Unaðsdalsbæinn um 1950. Ljósmynd Sigurjón Rist Unaðsdalsbærinn um 1950 Brúin yfir Dalsá um 1950 Guðrún Ólafsdóttir með fimm dætrum sínum. Í aldursröð: Guðríður, Guðbjörg, Sigurborg, Lilja og Lára Guðný Guðmundsdóttir, Guðbjörn Helgason og Guðmundur Jónsson um 1940 Guðrún Ólafsdóttir ung, um 1910
Gamli bærinn í Unaðsdal - brunavirðingarteikning frá 1934 Unaðsdalur um 1950 Báturinn Uni Guðrún Ólafsdóttir með börnum sínum framan við Unaðsdalsbæinn um 1935 Guðrún Ólafsdóttir ásamt Guðbirni syni sínum um 1965 Helgi Guðmundsson ungur


Til baka | 2. síða | 3. síða


Sendið póst