Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

2. Bæir

Í Bæjum var bænhús til forna. 1703 er þar tvíbýli og skráðir 23 heimilismenn. 1801 eru bæirnir orðnir þrír og íbúar 20. Uppúr 1930 bjuggu í Hærribænum Sigurður Ólafsson og María Ólafsdóttir. Sigurður var mikill söngmaður og hafði mjög sterka tenórrödd, var lengi forsöngvari í Dalskirkju. Synir hans spiluðu allir á harmonikkur, nema þeir sem voru örvhentir. Þarna var torfbær með tveimur burstum. Þegar komið var inn var brunnhús til vinstri. Þar rann bæjarlækurinn í gegn og innangengt var þaðan í fjósið.

Gamli bærinn í Hærribæ var rifinn 1939 og byggði Sigurður steinhús á sama stað. Búið var í fjárhúsum (Berghúsum) um sumarið sem húsið var byggt. Þetta hús var svo jafnað við jörðu árið 2000. Jens Guðmundsson og Guðmunda Helgadóttir voru síðustu ábúendur í Hærribæ, fluttu þaðan 1990.

Efst í Bæjatúninu er svonefnt Hólhús. Þar var áður torfbær sem Kolbeinn Jakobsson bjó í um tíu ára skeið, eftir að hann seldi Unaðsdal, með ráðskonu sinni sem Fríða var kölluð. Kolbeinn skrifaði árið 1893 minnisblöð um atburði sem tengdust Bæjadraugnum og var því einn helsti heimildamaðurinn um þá sögu. Arngrímur Fr. Bjarnason birti frásögn Kolbeins um Bæjadrauginn í Vestfirzkum þjóðsögum. Áður höfðu Þórbergur Þórðarson og Sigurður Nordal leitað til samtíðarmanna með frásögn af draugnum og birt í Gráskinnu. Jóhann Hjaltason, kennari, keypti Hólhúsið 1936 og byggði fljótlega nýtt steinhús sem enn stendur (2002).

Tildrög Bæjadraugsins voru þau í stuttu máli að Rósinkar Pálmason, 17 ára unglingur, lést þann 5. febrúar 1894 í Neðribæ á Bæjum eftir rúmlega tveggja mánaða þjáningar. Talið var að banamein hans hafi verið ofsóknir draugs sem nefndur hefur verið Bæjadraugurinn. Draugnum var lýst svo að hann væri svo háll viðkomu að ekki væri viðlit að ná neinu taki á honum. Saga spannst um að draugurinn væri afturgenginn bátsverji á sama bát og Rósinkar var á vorið 1893 og gerður var út frá Gullhúsám. Þessi skipsfélagi Rósinkars átti þá í heitingum við hann eftir tap í slagsmálum, en drukknaði svo í desember er bátur fórst í Jökulfjörðum. Ein útgáfa sögunnar var sú að draugurinn væri í selsham, því sjórekinn selur átti að hafa fundist skammt frá sjóreknu líki bátsverjans. Börnum var fyrirskipað að hnýta ekki trefla sína heldur hafa þá krosslagða um hálsinn af ótta við að draugurinn rykkti í trefilendann, líkt og hann mun hafa gert við Rósinkar. Eftir dauða Rósinkars mun félagi hans, Benedikt Brynjólfsson, hafa manað upp óvættina og orðið fyrir svipaðri ásókn. Var draugurinn þá kallaður Bensadraugur.

Árið 1930 fengu þáverandi ábúendur í Neðribæ, Halldór Halldórsson og Þorbjörg Brynjólfsdóttir, Ingvar Ásgeirsson frá Unaðsdal, síðar á Lyngholti, til að byggja nýtt hús úr timbri að Neðribæ. Húsið var kjallari og tvær hæðir, efri hæðin undir súð með þremur kvistum. Hlaða var utan til við húsið og því engir gluggar þeim megin. Póstafgreiðsla var hjá Halldóri í Neðribænum. Hús þetta var rifið 1967 þegar byggt hafði verið nýtt steinhús. Páll Jóhannesson og Anna Magnúsdóttir voru síðustu ábúendur í Neðri-Bæ og jafnframt á Snæfjallaströnd, sem fór í eyði haustið 1995.

Björnshúsið í Bæjum, stundum kallað Bensahús, var á barðinu rétt neðan við hliðið á heimreiðinni í Hærribæinn. Benedikt Ásgeirsson og Fanney Gunnlaugsdóttir áttu heima í Björnshúsi, en fluttu til Bolungavíkur 1941. Engilbert Ingvarsson man eftir skemmtun í Björnshúsi snemma á fjórða áratugnum. Þá var gert op á þilið og leikþáttur var sýndur í eldhúsinu, síðan var harmonikkuball á eftir. Fimmti bærinn í Bæjum, Karvelshús, var á neðri hjallanum, aðeins utar. Þetta hús var fallið fyrir 1930, en nú er þar minnismerki um Karvel Pálmason og Rósinkrönsu Jónsdóttur, konu hans.

Á Bæjahlíð, skammt innan Bæja rétt við veginn, er stór steinn sem talinn er landdísarsteinn. Ákveðið var að hrófla ekki við honum við lagningu vegarins.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Neðribær um 1930 Hærribær um 1950 Fólk frá Bæjum í lautarferð um 1950 Benedikt Ásgeirsson, BjörnshúsiFanney Gunnlaugsdóttir, Björnshúsi Ásgeir Erling Gunnarsson um 1947
Jóhann Hjaltason við Hólhús um 1940 Hærribær um 1940 Fermingarveisla í Hærribæ um 1950 Börnin í Hærribæ með móður sinni um 1945 Þorbjörg Brynjólfsdóttir, Neðribæ


Til baka | 2. síða | 3. síða


Sendið póst