Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

25. Höfðaströnd

Á Höfðaströnd voru ellefu heimilismenn árið 1703, þeirra á meðal Ólafur Árnason, lögréttumaður. Árið 1801 bjuggu þar níu manns á tveimur býlum. Í Jarðabókinni segir að bænhús hafi verið til forna á Höfðaströnd, en það sé fyrir minni manna í upphafi 18. aldar.

Efst og yst í túninu á Höfðaströnd eru miklar tóftir sem kallast Beinrófa. Sagt er að þar hafi hinn forni Höfðastrandarbær staðið, en verið yfirgefinn er upp kom taugaveiki. Ekki hefur þar verið grafið af ótta við sóttkveikjur, en talið er mögulegt að þar séu undir sverði öll búsgögn þess tíma.

Tíðagötur liggja frá hjöllunum ofan við Höfðaströnd á Staðarheiði. Á síðustu árum byggðar í Grunnavíkurhreppi var þríbýli á Höfðaströnd og hétu bæirnir Neðribær, Hærribær og Steinhólar. Hærribær stóð efst og innst bæjanna. Í Neðrabæ, sem enn stendur við sjóinn, bjuggu Ragnheiður Jónsdóttir ljósmóðir og Guðbjartur Kristjánsson. Hús þeirra hefur nú verið gert upp. Neðan við bæinn er lendingin sem kölluð er Vör. Síðustu ábúendur í Neðrabæ voru Grímur Finnbogason og Guðrún Finnbogadóttir. Steinhólar voru ysti bærinn, þar var fyrst býli á 20. öld. Ofan við Höfðaströnd gnæfa Hrafnabjörg. Auðgengið er þar upp og er þaðan gott útsýni. Í Vestfirzkum þjóðsögum segir frá því að draugurinn Mópeys hafi gert vart við sig á Höfðaströnd. Mópeys er líst svo að hann hafi verið unglingspiltur á mórauðri peysu með skinnskó á öðrum fæti og stígvél á hinni. Hann hafi orðið úti og gangi síðan aftur og fylgi fólki af tilteknum bæjum á Hornströndum og Jökulfjörðum með skráveifum og spellvirkjum.

Ljósmynd: Hjámar R. Bárðarson. Neðribær á Höfðaströnd 1939.


Til baka


Sendið póst