Forsíða
Ferðaþjónusta
Horfin býli
Kveðskapur
Kaldalóns
Steinn Steinarr
Rafvæðing
Spánverjavígin
Skólahald
Drangajökull
Undir Snjáfjöllum
Um Snjáfjallasetur
English

Snjáfjallasetur

Snjáfjallasetur var stofnað í Dalbæ á Snæfjallaströnd sumarið 2003. Setrinu er ætlað að safna, skrá og varðveita sagnir, kveðskap, myndir, muni og ýmis gögn sem tengjast sögu byggðar í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum og standa að sýningahaldi, útgáfustarfsemi, vefgagnasafni og ýmsum viðburðum.

Í stjórn setursins eru: Þórhildur Þórisdóttir formaður, Ingibjörg Kjartansdóttir ritari, Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri, Friðbjört Jensdóttir og Jónas Kristján Jónasson meðstjórnendur. Varamenn: Andri Freyr Arnarsson og Bergljót Aðalsteinsdóttir. Átthagafélag Snæfjallahrepps á aðild að Snjáfjallasetri. Miðstöð starfseminnar er í Dalbæ á Snæfjallaströnd

Byggðasögusýningin Horfin býli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu, sem opnuð var sumarið 2002, er grunnsýning setursins. Fyrsta verk Snjáfjallaseturs var að gefa út rit tengt sýningunni á íslensku og ensku, en þar er fjallað um elstu heimildir um ábúendur í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu, um þróun byggðarinnar, mannlíf og sagnir af draugum, huldufólki og ýmsum átrúnaði og upplýsingar um síðustu ábúendur á svæðinu. Á sýningunni Horfin býli og huldar vættir er einnig hægt að hlusta á upptökur úr segulbandasafni Stofnunar Árna Masgnússonar á kveðskap fólks úr Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum.

Önnur verkefni Snjáfjallaseturs frá stofnun eru m.a. sýningin Kaldalón og Kaldalóns, um tengsl tónskáldsins Sigvalda Kaldalóns við norðanvert Ísafjarðardjúp og ferðir yfir Drangajökul. Kammerkórinn á Ísafirði hélt tónleika við opnun sýningarinnar sumarið 2004. Sumarið 2007 var sýningin á Hólmavík. Einnig má nefna útgáfu ritsins Krafturinn í ánni - Snæfjallaveita og rafvæðing Inndjúps eftir Helga M. Sigurðsson, sagnfræðing, en sýning um rafvæðinguna í Inndjúpi var jafnframt opnuð í Dalbæ sumarið 2005. Sumarið 2006 var málþing og sýning um Spánverjavígin 1615 og um margvísleg samskipti Íslendinga og Baska á þeim tíma. Sýningin var á Hólmavík sumarið 2007 í samstarfi við Strandagaldur. Sumarið 2007 var sýning í Dalbæ um skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu í tilefni af 100 ára afmæli fræðslulaga og málþing í tengslum við sýninguna í Dalbæ. Ólöf Garðarsdóttir flutti erindi um barnaskóla á millistríðsárunum í ljósi kynferðis og stétta, þéttbýlis og dreifbýlis; Loftur Guttormsson var með erindi um viðbrögð Grunnvíkinga við fræðsluskyldunni 1907 og Engilbert Ingvarsson með erindi um skólahald í Snæfjallahreppi.



Sendið póst